Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur síðustu vikur ítrekað kennt kínverskum stjórnvöldum um Covid-19 faraldurinn, að hafa brugðist seint og illa við og þar með ekki getað heft útbreiðslu sjúkdómsins. Meðal annars hefur forsetinn talað um að sjúkdómurinn sé versta „árás“ á Bandaríkin síðan Pearl Harbour árásin var gerð í seinni heimsstyrjöldinni, og dylst engum að hann sé þar með að gefa til kynna að Covid-19 sé kínversk árás á Bandaríkin. Þá hefur hann einnig sagt að vírusinn hafi mögulega komið frá kínverskri rannsóknarstofu.
Kínverska utanríkisráðuneytið hefur varið meginhluta blaðamannafunda sinna síðustu vikuna til að bregðast við ásökunum Trumps og annarra bandarískra embættismanna. Á blaðamannafundi í gær birti kínverska utanríkisráðuneytið 30 blaðsíðna skýrslu þar sem 24 „fáránlegum ásökunum“ bandarískra embættismanna var hafnað, lið fyrir lið.
Vegna skorts á áreiðanlegum heimildum er erfitt er að leggja mat á hvort viðbrögð kínverskra stjórnvalda við upphaf faraldursins hafi verið með besta móti. Þó er rétt að geta þess að í frétt Der Spiegel í síðustu viku kom fram að þýska leyniþjónustan BND telur að fyrstu tilraunir kínverskra stjórnvalda til að halda upplýsingum leyndum hafi kostað heiminn 4 til 6 vikur sem hefðu getað nýst til að berjast gegn vírusnum.