Kínverjar voru fyrstir til að fara í gegnum Covid-19 faraldurinn að mestu. Þrátt fyrir nokkur ný smit hér og þar í Kína á síðustu vikum, þá er lífið þar í landi smátt og smátt að færast í það sem kalla mætti eðlilegt horf.
Alþjóðlega ráðgjafa fyrirtækið McKinsey & Company (sem Íslendingum er vel kunnugt eftir skýrslu sem þeir unnu árið 2012 „Charting a Growth Path for Iceland„) stóð fyrir könnun í Kína á dögunum, þar sem spurningalisti var lagður fyrir 1.600 ferðalanga í 8 borgum.
Allir sem svöruðu spurningalistanum höfðu annað hvort ferðast innanlands eða utanlands á síðasta ári. Þeir voru spurðir hvenær líklegt væri að þeir færu í sína næstu ferð, hver ætlar að fara í ferðina og með hverjum, hvert þeir vildu fara og hvað þá langaði að gera.
Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:
Flestir ferðamenn búast við að fara í næsta ferðalag milli september og október, flestir í kringum frídaga tengdum þjóðhátíðardegi Kína, 1. október.
Þeir sem fyrstir búast við að ferðast eru ungir, einhleypir og reyndir ferðalangar.
Flestir búast við að ferðast innanlands, en margir hafa enn ekki ákveðið áfangastaðinn.
Fjölskylduvænir og matartengdir áfangastaðir eru vinsælir þrátt fyrir áhyggjur af Covid-19.
Hópastærðir í ferðalögum fara minnkandi.
Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu? Hvernig geta þau nýtt sér þessar upplýsingar?
Skýrsluhöfundar mæla með miðaðri markaðsfærslu (e. target marketing) á þá markhópa í völdum borgum sem hyggja á ferðalög á næstu 3 mánuðum, á næstu 3 – 6 mánuðum og svo eftir 6 mánuði.
Þeir mæla einnig með að aðlaga vöruframboð: Mikilvægt er að laga vöru- og þjónustuframboðið til að höfða til breyttrar samsetningar á þeim hópi sem kemur til með að ferðast. Þetta verða yngri stórborgarar, í smærri hópum. Þá liggja tækifæri í þeirri staðreynd að margir hafa enn ekki ákveðið áfangastað.
Þá er einnig mælt með því að vera vakandi fyrir möguleikum í smásölu, þar sem 70% aðspurðra sögðust ætla að ferðast án fjölskyldu sinnar. Þessi hópur hefur í sögulegu samhengi eytt mun meira í að versla en aðrir hópar.
Skýrsluna má finna í heild sinni hér.