Af hverju drekka Kínverjar heitt vatn?

Íslendingar sem ferðast hafa til Kína eða sem hafa starfað í ferðaþjónustu og þjónustað Kínverja, hafa eflaust kynnst því að Kínverjar eru ekki hrifnir af því að drekka kalt vatn. Undantekningarlaust er beðið um heitt vatn eða te með matnum og hraðsuðuketill er staðalbúnaður á hótelherbergjum.

Kínverskt te
Kínverskt te

Margur Íslendingurinn hefur furðað sig á þessu, enda þykir okkur fátt betra en ískaldur sopinn úr krananum og því finnst okkur það skjóta skökku við að drekka heita drykki t.d. með mat. En það eru ekki bara Íslendingar sem skilja ekki þennnan vana: einn algengasti leitarstrengurinn í Google í tengslum við Kínverja er einmitt af hverju Kínverjar vilja frekar heitt vatn en kalt.

En hver er ástæðan fyrir því að Kínverjar kjósa heldur heita en kalda drykki?

Á síðustu öld má finna dæmi þess að stjórnvöld í Kína hafi rekið áróðursherferðir til að hvetja almenning til að drekka heitt vatn, þar sem það þótti vera hreinna og heilnæmara en kalt vatn. Áhrifin eru ótvíræð: hvert sem farið er í Kína er aðgangur að heitu vatni. Skrifstofur fyrirtækja hafa ef til vill ekki hvíldarrými eða setustofu fyrir starfsmenn, en stór vél með heitu vatni verður örugglega á áberandi stað.

Áróðursplakat sem hvetur almenning til að drekka heitt vatn

En rætur þessarar hefðar teygja sig mun lengra aftur en til síðustu aldar. Önnur ástæða þess að Kínverjar hafa vanið sig á að drekka heitt vatn er sú að það er góð og ódýr leið til að halda á sér hita. Áður en miðstöðvarhiti kom til sögunnar gat verið erfitt að ylja sér á öldum áður. Bómull kom ekki til sögunnar í Kína fyrr en á tímum Ming keisaraveldisins á 14. öld.

Kínverjar hafa í gegnum aldirnar iðulega byggt upp samfélög sín nálægt uppsprettum vatns, hvort sem það voru ár eða stöðuvötn. Snemma var til staðar skilningur fyrir því að vatn var ekki alls kostar hreint og að það borgaði sig að hreinsa vatnið á einhvern hátt og Kínverjar gripu því til þess ráðs að sjóða vatnið til að drepa bakteríur.

Starfsmaður í kínversku náttúrulyfja apóteki

En mikilvægasta ástæðan fyrir því að þessi vani hefur fylgt kínversku þjóðinni í gegnum tíðina er án efa tengd hefðbundum kínverskum lækningum. Í elsta handriti sem þekkt er um kínverskar lækningar, hinu rúmlega 2.000 ára gamla Huangdi Neijing 黄帝内经, er mælt með heitu vatni sem árangursríkri leið til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Í handritinu er einnig talað um að kalt vatn geti hindrað líffærin í að starfa almennilega.

Ein af grunnhugmyndum í hefðbundnum kínverskum lækningum er jafnvægið milli yin og yang, sem í grófum dráttum mætti lýsa sem jafnvæginu milli kaldrar og heitrar orku. Ef þessi tvö öfl eru ekki í jafnvægi getur það leitt til alls konar kvilla í líkamanum. Með því að drekka heitt vatn getum við nært yang-ið í líkamanum, sem má líkja við aflgjafa líkamans. Melting og næringarupptaka veltur að stórum hluta á starfsemi miltans og magans, sem eru keyrð áfram af yang-inu. Yang-ið tryggir einnig að líffæri starfi á réttan hátt og stuðlar þar með að bættri heilsu.

3 athugasemdir á “Af hverju drekka Kínverjar heitt vatn?

  1. Það hefur aldrei verið hollt að drekka kalt vatn, líkamanum ekki eðlilegt. Íslendingar eru ekki alvitrir.
    Við sem höfum verið / eða erum í ferðaþjónustu eigum einfaldlega að leggja okkur fram við að þjóna gestum okkar eins og kostur er. Skiptir ekki máli þó það sé eitthvað, sem við erum ekki vön gera og/eða þekkjum ekki. Það er besta markaðssetningin. Óþolandi þegar fólk í ferðaþjónustu þusar og hneysklast á þessu og hinu, ef það er eitthvað sem öðruvísi. Bara brosa og gera okkar besta, það er besta markaðssetningin.
    Mér finnst gott að fá mér heitt te með mat (mörgum Íslendingnum finnst það skrítið) að ógleymdu vatninu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s