Alibaba seldi vörur fyrir meira en 75 milljarða Bandaríkjadala – 26% aukning frá því í fyrra
Dagsetningin 11. nóvember hefur fram til þessa ekki haft mikla merkingu í huga Íslendinga, en í ár varð töluverð breyting þar á. Allir sem vettlingi gátu valdið auglýstu sérstök tilboð og afslætti í gær, á „singles day“, eða degi hinna einhleypu. Á kínversku er dagurinn almennt kallaður 光棍节 (dagur einhleypra) eða 双11, (tvöfalt ellefu) og er talinn eiga rætur sína að rekja til ársins 1993, þegar nokkrir einhleypir strákar í Nanjing Háskóla vildu brjóta upp hversdagsleika einhleypra manna með því að halda upp á daginn.
Ekki er um opinberan frídag að ræða, en dagurinn hefur hægt og rólega þróast í að verða mesti verslunardagur í heimi, þar sem verslanir bjóða fram mjög góða afslætti og einstök tilboð. Þá er einnig ljóst að þessi dagur er kominn til að vera í íslensku verslunarumhverfi, þar sem annar hver maður virðist hafa gert góð kaup í gær!